Kærleikshringir
Kærleikshringur er einlægt hópsamtal þar sem allir leggja frá sér síma og annað utanaðkomandi áreiti. Hver þátttakandi fær rými til að tjá sig, á meðan aðrir hlusta af athygli, virðingu og opnum huga. Sá sem leiðir samtalið opnar umræðuna og heldur utan um rýmið og hópinn af nærgætni.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hefur haldið tvo kærleikshringi á Bessastöðum, upphafshringinn og í framhaldinu kærleikshring með karlmönnum. Grunn- og framhaldsskólar landsins hafa haldið fjölda kærleikshringja og Riddarar kærleikans hafa staðið fyrir tveimur kærleikshringjum. Annars vegar með Alþingisfólki og hins vegar áhrifavöldum. Stefnt er að því að halda fleiri kærleikshringi meðal annars með fjölmiðlafólki.

Hvernig á að halda kærleikshring?
Leiðbeiningar
♡ Setið í hring á hlýlegum og öruggum stað sem styður við tengingu innan hópsins.
♡ Æskileg hópastærð er 10–25 manns (hámark 30).
♡ Gott er að miða við 60–90 mínútur svo allir fái tækifæri til að tjá sig.
♡ Hlustað er af virðingu, vinsemd og athygli, án dóma og afskipta.
♡ Þátttakendur tala þegar þeir hafa löngun til og gefa leiðbeinanda merki.
♡ Ekki þarf að fylgja ákveðinni röð – öll fá tækifæri til að tala áður en einhver tekur aftur til máls.
♡ Trúnaður gildir um samtalið nema sérstaklega sé samið um annað.
♡ Þátttakendur eru hvattir til að virkja sköpunarkraft, hugrekki og styrk og að beina athyglig að því sem gengur vel.
Upphafsspurningar til að vekja samtalið
♡ Hvernig sýnum við kærleik í verki?
♡ Hvernig getum við gert kærleikann að öflugasta aflinu í samfélaginu?
♡ Hvernig drögum við úr neikvæðum áhrifum snjallsíma og samfélagsmiðla á andlega og félagslega heilsu?
♡ Hvernig getum við minnkað einmanaleika og vanlíðan?
♡ Hvernig getum við bætt samfélagslega umræðu um flókin mál?
♡ Hvernig getum við styrkt stöðu minnihlutahópa í samfélaginu?








